Einar Þór Björnsson tók eftir að það vantaði íslenskt barnaefni á netinu og bjó þá til ofurhetjuna Sólon sem má fylgjast með á YouTube. Einar býr með konu sinni Írisi og tveggja ára dóttur í Kópavogi.
Hvernig kom þessi hugmynd að barnaþáttunum til?
Hugmyndin kom þegar að konan mín Íris var ólétt. Við vorum upp í bústað með litla frænda Írisar að horfa á mjög heilalaust barnaefni og ég var að hugsa hvað þetta væri skrýtið og mikil sýra. Og síðan bara tók ég eftir áhorfinu. Það var bara billjón views eða eitthvað. Þá fékk ég þessa flugu í hausinn. En þetta var ekki nema hugdetta. Síðan fór ég að bera þetta undir Írisi og henni fannst þetta fullkomin hugmynd fyrir mig. Eins með aðra; þegar ég spurði var alltaf sama svarið að þetta sé eitthvað sem ég ætti að gera. Ég sá að það var vöntun. Skoppa og Skrýtla voru nýhættar og það var bara svona gluggi sem var opinn. Svo hugsaði maður líka um mína stelpu, að þetta væri gaman fyrir hana. Þannig ég ákvað bara að ef ég ætlaði að gera þetta þá færi ég bara all in.
Getur þú sagt mér aðeins frá karakternum Sólon?
Já, ef maður fer alveg í byrjunina þá var það fyrsta sem ég gerði bara að opna tölvuna og lesa einhverjar rannsóknir og eitthvað svona. Það hjálpaði mér að finna hvaða markhóp, leikskólaaldur, og hvað virkaði fyrir þau að jafnaði. Þessi aldur á t.d. mjög erfitt með að greina milli fantasíu og raunveruleika. Ég ákvað strax þá að þetta ætti að vera einhver ofurhetja. Why not? Það er alltaf skemmtilegt. Svo fór ég að lesa um litina og appelsínugulur fannst mér rosalega hentugur einhvern veginn. Hann er hlutlaus. Hann er ekki bleikur og blár. Hann representar einhvern svona hlýleika. Og svo þegar það var komið ekki þá bara nota sólina? Ókei hann heitir Sólon og þetta var þá svolítið í lausu lofti gripið. Og svo er side-kickið oft eitthvað dýr, sem er kanína sem konan mín leikur. Þannig kom þetta til.
Hvernig finnst dóttur þinni að sjá þig á skjánum?
Henni fannst það bara mjög gaman. Ég er byrjaður að skemmta og þegar hún sér mig í búningnum þá verður hún alveg tryllt. Og einokar pabba sinn. Eltir mig út um allt. En svo þegar ég er ekki í búningnum þá er ég bara pabbi. En hún elskar að horfa á Sólon á YouTube. Hún er smá tilraunardýr. Ég sé hvað hún fílar.
Þurftiru ekki svolítið að stíga út fyrir þægindarammann að fara að leika?
Jú, í rauninni er ég ekkert mikið að skammast mín fyrir mína hegðun þannig séð. Ég er ófeiminn að eðlisfari og get verið barnalegur. Þess vegna sagði fólk líka að þetta væri fullkomið fyrir mig. En að skemmta það var óþægilegt. Mér fannst ekkert óþægilegt að vera í búningnum og að taka upp en að skemmta var óþægilegt. Sérstaklega þegar ég var baksviðs, kominn í búninginn og kíki í spegil og hugsa bara: „Hvað ertu að gera, Einar? Er þetta það sem þú ætlar að verða þegar þú ert orðinn stór?“ Og fara út og hitta krakkana, það var svolítið skrýtið en ég er orðinn vanur því núna.
Hvaða tilgangi viltu að þættirnir þínir þjóni?
Ég vil helst að krakkarnir séu að horfa á íslenskt efni. Og að boðskapurinn sé að hafa gaman af lífinu. Bara að vera að flippa.
Varstu ekki að finna nógu margt efni á íslensku fyrir dóttur þína?
Nei, það er alveg eitthvað þarna en mjög fátt. Mér fannst líka bara ekki margt sem var gott eða skemmtilegt. Henni fannst það ekki skemmtilegt.
Hvernig hafa viðtökurnar verið?
Viðtökurnar hafa verið þúsund sinnum betri en ég þorði að vona. Þetta fór ótrúlega hratt af stað. Í dag eru fullt af járnum í eldinum. Það eru að opnast margir gluggar sem ég átti ekki von á að myndu opnast. Til að byrja með var ég mjög stressaður. Það vissu mjög fáir að ég væri að gera þetta og svo var ég að spila fótbolta og hitta fullt af fólki dagsdaglega og ég var að hugsa: „Hvað verður um mig? Verð ég eitthvað freak? Þarf ég kannski að flýja land?“ En um leið og ég kastaði þessu út voru allir mjög ánægðir.
Það er margt efni á YouTube sem er ekki beint heilnæmt og þroskandi, þannig ég ímynda mér að foreldrar séu fegnir að fá þitt efni inn?
Já, ég fæ alveg nokkrum sinnum á dag skilaboð frá foreldrum að peppa mig. Það er byr í seglin.
Varstu búinn að leiða hugann að því hvað þetta yrði dýrmætt fyrir Íslendinga í útlöndum?
Já, það var alveg ljóst fyrir mér. Ég á ættingja sem búa úti og þau töluðu oft um þetta að það vantaði íslenskt barnaefni. Ég er einmitt að fá skilaboð frá fólki í Köben og Spáni og alls konar sem er að þakka mér fyrir.