Í desember 1975 komu nokkrar konur saman í Itsig Í Lúxemborg og ræddu hugmyndina að vera með smá uppákomu á Þorrablóti Íslendingafélagsins. Til liðs við sig fengu þær Sigrúnu Valbergsdóttur sem var þá við nám í Köln í leikhúsfræðum. Þetta framtak tókst mjög vel og var starfsemin mjög blómleg og skemmtileg til margra ára. Sigrún keyrði um hverja helgi til Lúxemborgar til að leiðbeina hópnum. Bróðir hennar, Pétur Valbergsson, var búsettur í Lúxemborg og þangað kom hún oft í heimsókn.
Hvað var bróðir þinn Pétur að fást við í Lúxemborg?
Pétur bróðir minn vann sem flugstjóri hjá Loftleiðum á Íslandi og var ráðinn til Cargolux í Luxemburg þegar Loftleiðir seldu því fyrirtæki skrúfuvélar sínar. Það var árið 1971. Fjölskylda hans flutti þá í framhaldinu frá Íslandi til Luxemburgar. Pétur var flugstjóri hjá Cargolux þar til hann fór á eftirlaun og býr enn í Lux. Kona Péturs heitir Bjargey Eyjólfsdóttir, hún stundaði verslunarmennsku í Luxemburg, Trier og víðar. Dætur þeirra eru þrjár: Sigrún Pétursdóttir, fasteignasali í Luxemburg á þrjú börn og tvö barnabörn þar. Dögg Pétursdóttir á og rekur tjaldstæði, hjólhýsastæði og veitingahús í Monschau í Eifelhæðum í Þýskalandi. Hún á þrjú börn búsett í Luxemburg. Þriðja dóttirin Tinna Pétursdóttir býr á Íslandi og er verkefnastjóri hjá Listaháskóla Íslands. Hún á tvö börn. Þó það komi Luxemburg ekki við þá á Pétur bróðir minn tvö börn af fyrri samböndum, Oddnýju sem býr í Texas USA og á tvo syni og 5 barnabörn og Ólaf, málarameistara á Selfossi sem á fjögur börn og tíu barnabörn. Jamm, þetta er mikill ættbálkur.
Hvar í Þýskalandi varst þú við nám í leikhúsfræðum?
Ég var í námi við Albertus Magnus háskólann í Köln. Ég flutti með eiginmanni mínum og syni á fyrsta ári til Aachen í Þýskalandi árið 1970 og seinna fluttum við til Kölnar. Frá þessum borgum var bara þriggja tíma akstur til Luxemburgar. Það var því mikill fengur að fá Pétur bróður minn og fjölskyldu til okkar í nágrennið eins og okkur fannst Luxemburg vera þá. Það var oft farið á milli og þannig kynntist ég hluta af hópnum í Luxemburg. Meðal þeirra var Þórhildur Hinriksdóttir, mikil áhugakona um að koma upp leikhópi í Luxemburg og sú sem átti frumkvæðið að því að fá mig til að koma og vinna með þeim.
Hvert var þitt framlag í Spuna?
Ég bjó til leiklistarnámskeið fyrir hópinn. Hitti hann síðdegis á föstudögum, var með þeim á laugardögum og sunnudögum. Þegar leið á fyrsta veturinn fórum við að setja saman litla sketsa sem við steyptum síðan saman í sýningu.
Hvað varstu lengi með hópnum?
Ég var með þeim hluta úr vetri í þrjú ár, eða þar til ég flutti heim 1979. En svo kom ég til þeirra í tvö ár á eftir í stuttan tíma í senn og æfði upp með þeim sýningu sem sýnd var fyrir Íslendingafélagið. Ég var líka hjá þeim með leiklistarnámskeið 1998. Auðvitað naut ég góðs af því að Pétur bróðir minn og Bjargey bjuggu þarna miðsvæðis og þar hafði ég húsaskjól og rúmlega það.
Var þetta fjölmennur hópur?
Það voru yfirleitt um 10 – 12 í hópnum. Allir mjög virkir og mættu vel á æfingar, þótt allar væru konurnar með börn á ýmsum aldri og þetta voru æfingar um helgar.
Hvernig var Lúxemborg á þessum tíma? Borgin og samfélagið?
Ég bjó aldrei í Luxemburg og get ekki svarað þessu af neinu viti. Það var alltaf gaman að koma og hitta fjölskyldu mína þar, gaman að fara niður í bæ og út að borða þar, en ég var mest að vinna og ekki inni í neinu nema íslenska samfélaginu. Það var hins vegar nokkuð stórt á þessum tíma eða á við þorp úti á landi. Um 500 manns, mest fjölskyldufólk, sem hélt mjög vel saman og hittist oft.
Var Spuni aðalfélagslíf Íslendinga í Lúxemborg á þessum tíma?
Íslendingafélagið var auðvitað stærsta félagið. Áreiðanlega urðu til félög, saumaklúbbar og spilafélög sem þarf að spyrja þá um sem hafa búið þarna í hálfa öld. Spuni var sérstakur kimi í þessu félagslífi. En Spuni var það virkt og áberandi félag að það varð aðili að Bandalagi íslenskra leikfélaga, formaðurinn sótti aðalfundi þess og þau komu meira að segja í leikferð til Íslands.
Áttu þér uppáhaldsminningu frá æfingu eða sýningu?
Ég man bara hvað þetta gekk allt saman vel og smurt og hvað félagar í Spuna var frábært og lausnamiðað fólk. Áður en kom að fyrstu sýningu voru einhverjar konur að tala um hvort það væri ekki gott að fá sér einn bjór á undan til að dempa taugaóstryrkinn. Þegar kom að næst síðustu æfingu bauð ég þeim uppá bjórglas fyrir æfinguna og það hafði þær afleiðingar að textinn ruglaðist, innkomur voru á vitlausum stað og þá þurfti ekki að ræða neitt meira um deyfingarlyf gegn sviðsskrekk.
Hvernig voru æfingarnar?
Æfingarnar voru yfirleitt í heimahúsum. Hjá þeirri sem var með stærstu stofuna. Hún hellti uppá kaffi handa öllum og sendi börnin í pössun.
Heldurðu að það sé hægt að koma lífi í Spuna aftur?
Það þarf í raun ekki nema einn eldhuga sem hefur hugsjón, smitar út frá sér og er til í að draga vagninn. Þetta er alveg sambærilegt við mörg leikfélög í litlum byggðarlögum út um landsbyggðina hér á Íslandi. Ef slíkur eldhugi er á staðnum þarf samfélagið ekki að vera stórt til að koma upp sýningu, en ef þessi einstaklingur flytur burtu þá er líkt og orkan hverfi. Aðalmálið fyrir alla leikhópa er að halda hópnum opnum fyrir nýjum félögum, dreifa ábyrgð og verkefnum, gefa ungu fólki tækifæri og finna möguleika til að sækja námskeið og sjá sem flestar leiksýningar.