Kristján Richter gerðist flugmaður hjá Cargolux 1971, varð síðar flugstjóri og hefur búið í Lúxemborg síðan þá. Hann er einnig menntaður í siglingafræðum. Hann býr í Cents og er ánægður í Lúxemborg. Hann á þrjár dætur sem búa í Bretlandi, Nýja-Sjálandi og Íslandi.
Hvar ólst þú upp?
Bústaðarhverfinu í Reykjavík. Það var mjög fínt. Maður var alltaf að leika sér úti. Mamma hafði engar áhyggjur þó maður væri niðri í Vatnagörðum.
Hvernig kom það til að þú flutti til Lúxemborgar?
Ég var að elta flugvélar. Ég fór í Biafra stríðið. Það var það fyrsta hjá mér á stórum vélum. Var í tæpt ár þar í stríðinu. Þetta var 1970.
Hvernig var þín fyrsta upplifun af Lúxemborg?
Hún var nú ekkert góð. Fyrst þegar ég kom hingað var það á vegum Loftleiða. Öll götuljósin voru gul. Það var svo drungalegt og kalt og bara ógeðslegt. Þetta var bara fátækt land. Hér var ekkert að gerast. En það var alltaf gott að vera hérna.
„Þarna hafði ég stjörnurnar og navigeraði eftir stjörnum“
Áttu einhverjar sögu úr starfi þar sem þú þurftir að nýta þér siglingafræðina?
Við vorum komnir til Damaskus í Sýrlandi á leiðinni til Singapore. Það kom allt í einu upp að það væri cargo að hafa í Singapore. Við ætluðum að fara á Hilton hótel í Damaskus en karlarnir sem tóku á móti okkur sögðu að það væri allt fullt því það væri hátíðisdagur. Þá ákváðum við bara að afhlaða vélina sjálfir og þeir pumpuðu eldsneyti á hana fyrir okkur. Og svo ætluðum við að fara að sofa um borð á köldu gólfinu. Og svo byrjaði einhver að muldra eitthvað og þá spyr ég hvort þeir geti sofnað og þeir svara því neitandi. Og þá spyr ég hvort við eigum ekki bara að koma okkur héðan. Með því að fara með ströndum hefðum við nýtt okkur radíó-vita en meðfram ströndinni var ógnandi skýjafar monsún vindanna. Til þess að fara beint þurfum við að hafa siglingafræðing um borð. Þá notaði ég þetta. Passaði bara að fara þegar það var farið að kvelda og við gátum ekkert sofnað á ísköldu gólfinu. Þá stefndi ég beint á Colombo og svo bara áfram niður til Singapore. Þarna hafði ég stjörnurnar og navigeraði eftir stjörnum. Það var gaman.
„Hérna er rosalega gott að vera.“
Hvernig kanntu við þig í Lúxemborg?
Mjög vel. Hérna er rosalega gott að vera. Hugsaðu þér, núna ég er búinn að vera á spítalanum og nýkominn heim og hjúkkunar eiga að koma hingað og sjá hvernig ég færi að þessu að setja töflur í lyfjabox samkvæmt fyrirmælum spítalans.
Þannig það er góð eftirfylgni í heilbrigðisþjónustunni?
Já rosalega. Alvöru.
Saknaru Íslands?
Nei. Ekki eins og það er orðið.