Kristín er Hafnarfjarðarmær sem flutti með manni sínum Svenna og þriggja ára dóttur til Lúxemborgar árið 2006. Síðan þá hafa tvö börn til viðbótar bæst í hópinn og hundurinn Romeo. Kristín rekur hárgreiðslustofuna Centro í miðbænum sem fékk verðlaun fyrir bestu hárgreiðslustofuna í Lúxemborg árið 2023. Þar að auki stendur til að opna aðra stofu í borginni í náinni framtíð.
Hvað fékk ykkur til að flytja til Lúxemborgar?
Maðurinn minn fékk vinnu í Landsbankanum hérna back in the day, 2006. Það er gott að búa í Lúxemborg og við ákváðum að búa hér áfram.
Og þið þurftuð ekkert að hugsa ykkur tvisvar um þegar tilboðið kom?
Jú, ég var reyndar að fara að kaupa hárgreiðslustofu. Ég ætlaði að kaupa af stelpu sem var að selja sína stofu í Hafnarfirði og svo hætti hún við á síðustu stundu þannig þá var það bara: „Heyrðu, stökkvum á þetta!“
Höfðuð þið einhvern tímann áður komið til Lúxemborgar?
Ég hafði áður komið til Lúxemborgar með pabba. Ætli ég hafi ekki verið svona 12 ára. Þá var hann að fara á sýningu, þau mamma reka lítið fyrirtæki. Hann var að fara á sýningu í Düsseldorf. Icelander flaug til Lúxemborgar á þeim tíma og við stoppuðum hér í heilan dag og eina nótt og fórum svo til Düsseldorf þannig ég hafði komið einu sinni áður.
Sú var tíðin þegar það var beint flug hingað...
Já, það væri mjög gaman ef það væri enn þá. Það væri þægilegra. Þá myndi maður kannski nenna að fara oftar til Íslands.
Hvernig var svo upplifunin þegar þú komst hingað með fjölskyldunni?
Hún var bara mjög fín. Við þekktum nokkra Íslendinga sem höfðu búið hérna í einhver ár að vinna í bönkum. Og það var einhvern veginn bara vel haldið utan um alla sem voru að flytja. Allir einhvern veginn þekktu alla og allir vildu hjálpa til og benda manni á hvað væri best að gera og svona. Þannig það var bara mjög skemmtilegt. Fyrir utan það að ég talaði engin tungumál hérna á þeim tíma. Þetta eru 18 ár síðan. Það virtust ekki vera margir, eða sögðust ekki margir geta talað ensku. Það er búið að breytast svolítið mikið núna. Þannig mér leið svona pínu mállaus fyrst. En þú veist, það kom bara.
Hvaða tungumál talaru þá í dag?
Frönsku af þessum local tungumálum. Ég hef ekki enn þá farið út í lúxemborgískuna en ég held ég sleppi henni bara.
Þið hafið þá ekkert verið að sækjast eftir ríkisborgararéttinum?
Við ætlum að gera það eftir tvö ár. Þegar maður er búinn að búa í tuttugu ár í Lúxemborg þá er nóg að fara í 36 tíma lúxemborgískunámskeið. Engin próf eða neitt en maður þarf að læra um Lúxemborg, söguna, og maður þarf að tala pínulítið í tímum og eitthvað svona bara til að komast aðeins inn í þetta. Þannig við ætlum bara að gera það.
Í gegnum hvaða skóla lærðiru frönsku?
INL
Hvernig finnst þér sá skóli?
Bara voða basic sko. Hann var reyndar ekki staðsettur þar sem hann er staðsettur í dag. Hann var í svona gámum. Ekki mjög aðlaðandi. En þetta var allt í lagi, bara mjög týpískt.
Geturu sagt mér frá starfinu þínu?
Ég er hárgreiðslumeistari og rek hárgreiðslustofu í Lúxemborg. Búin að reka hana núna í 5 ár. Erum að fara að halda upp á 5 ára afmæli núna um helgina.
Hvernig gekk að stofna fyrirtæki hérna?
Mjög vel. Eina sem ég þurfti að bíða eftir er Menntamálaráðuneytið í Lúxemborg þurfti að taka sinn tíma að skoða öll diplóman og alla söguna mína á Íslandi. Það hafði greinilega enginn frá Íslandi sótt um að opna stofu í Lúxemborg. Þannig þeir þekktu ekkert öll diplóman og hvað allt þýddi þannig ég þurfti að láta þýða allt professional. Það tók þá svona tvo og hálfan mánuð að fá það í gegn.
Þið voruð valin besta stofan 2023?
Já. Það var skemmtilegt. Þetta er allt búið að vera bara eitthvað ævintýri hjá mér. Ekkert sem ég bjóst við. Bara betur en ég þorði að vona. En jákvætt, mjög jákvætt.
Ertu með stóran kúnnahóp af Íslendingum?
Ekkert risa. Flestir af okkar vinum sem við vorum alltaf með í byrjun eru flutt til Íslands, eftir að bankarnir hrundu. Það eru örfáir eftir, þú veist. Þeir sem eru eftir sem ég þekki eru hér.
Hvað finnst þér svo skemmtilegast að gera utan vinnutíma?
Fjölskyldan. Elsta dóttir okkar er í háskóla í Hollandi og maður reynir að fara til hennar eins og mikið og hægt er og hún kemur líka hingað. En ég á önnur tvö börn hér líka sem eru í skóla þannig mér finnst bara gott að koma heim og vera með þeim. Og bara já, fjölskyldulíf.
Hvað finnst ykkur skemmtilegt að gera um helgar?
Ég vinn á laugardögum þannig þetta eru eiginlega bara sunnudagar sem ég hef með þeim. En sunnudagarnir nú til dags snúast um fótbolta. Sonur minn er í fótbolta. Það eru leikir alla sunnudaga.
Uppáhaldsveitingastaður?
Þetta er eiginlega erfiðasta spurningin. Ég á engan uppáhalds. Það fer bara eftir því í hvaða stuði maður er í. Það er góður ítalskur, það er góður sushi, það er góður franskur og eitthvað svona. Þetta hljómar rosa corny sko en uppáhaldskokkurinn minn er maðurinn minn. Þannig mér finnst bara heima best. Já ég myndi bara segja bleika húsið því við búum í bleiku húsi.
En þú ert svona almennt ánægð með veitingahúsasenuna hérna?
Sko það eru mjög fáir staðir sem ég er bara „vá þetta er geggjaður matur.“ Þetta er meira upplifunin, þjónustupakkinn og það. Utanumhaldið, hvernig er tekið á móti þér og svoleiðis. Mér finnst maturinn sjálfur bara rosa basic. Það er ekkert „vá!“
Saknaru Íslands?
Mmm.. auðvitað. Sérstaklega þegar það eru einverjir svona stórir dagar í fjölskyldunni. Einhver á stórafmæli. Systir mín eignaðist barn núna í ágúst, annað barn. Þá missir maður af öllu svona.
En samfélagsins?
Eiginlega ekki. Ég er búin að vera hérna það lengi. Þannig að í rauninni í hvert skipti sem við förum til Íslands þá reyndar segja krakkarnir mínir það sko: „Mér finnst Íslendingar svo dónalegir. Þeir segja aldrei góðan daginn og góða kvöldið.“ Af því að nú er maður orðinn svo vanur því. Það eru allir svo kurteisir hérna. Krakkar standa upp fyrir gömlu fólki í strætó. Það höfðar meira til mín þessi kurteisi og vera þakklát og þetta. En kannski er þetta bara minning frá Íslandi sem ég man ekki eftir. En ef að krakkarnir mínir segja það þá einhvern veginn: „Já, það er alveg rétt hjá þér.“ Það segir enginn góðan daginn við þig á Íslandi, ókunnugan sko.
Hvað er svo það besta við að búa í Lúxemborg?
Ú, það er mjög margt. Heilbrigðiskrefið hérna er mjög gott. Maður þarf ekki að bíða á biðlista í mörg ár eftir einhverju einföldu. Eins og maður heyrir á Íslandi. Þá er ég bara að bera saman þau tvö lönd sko. Þetta er bara öruggt land, það er gott að búa hérna, það er allt hreint og fínt. Samgöngur eru fríar sem er bara þvílíkur bónus. Stutt að fara í allar áttir. Þú tekur hraðlestina til Parísar og það tekur tvo tíma. Það er þægilegt að ferðast hérna. Stutt í allar áttir.
Hafið þið verið að nýta ykkur það að taka skreppitúra til næstu landa?
Já já já, alveg. Þegar krakkarnir okkar voru ung fórum við alltaf í svona roadtrips. Vorum alltaf bara á bílnum að keyra út um allt. En jú við hjónin förum til Parísar oft og til Rotterdam þar sem dóttir okkar býr. Þetta er allavega auðveldara en að búa á eyju. Segir sig sjálft.
Fylgistu eitthvað með íslenskum fjölmiðlum og afþreyingarefni?
Já við gerum það alveg. Skaupið er bara númer eitt. Það bara er ekki gamlárskvöld nema að við horfum á skaupið. En já, jújú við horfum á Eurovision og eitthvað svona þetta týpíska. En allir þessir íslensku þættir, kannski ekki eins mikið. Af því að þú veist við vinnum ekki á Íslandi og það er ekki þessi kaffistofu: „Sáuð þið þáttinn í gær?“ Maður er alveg kúplaður út þar sko.
Mætiru á viðburði Íslendingafélagsins?
Ekki lengur. Við fórum alveg nokkrum sinnum á 17. júní hátíðina og þorrablótin. Við gerðum það svona í byrjun. Bara einhvern veginn ekki lengur. Við erum komin miklu meira með svona local vini og samfélag. Eins og ég segi ég rek þessa stofu og við hittumst reglulega, við staffið. Og þetta bara einhvern veginn hentar mér ekki lengur.
Hefurðu kynnst mikið af Lúxemborgurum?
Ekki mörgum en það eru einhverjir. Foreldrar úr fótboltaliðinu hjá syni okkar eru lúxemborgísk. Dóttir mín á kærasta sem er lúxemborgískur. Við erum búin að hitta pabba hans sem er Lúxari. Og svo eru kúnnar og alls konar. Endurskoðandinn okkar er Lúxari og svona. Lúxarar hleypa ekki öllum að til að byrja með. Ég skil það vel að mörgu leyti því Lúxemborg er ekkert nema expats. Fólk er að koma og fara daglega. Þú getur ímyndað þér að þú myndir búa á Íslandi og ættir heima í götu sem væri bara ekkert nema expats. Þú myndir ekki nenna að standa í þessu. Þetta er svolítið pælingin sko. En í götunni sem við búum eru bara expats. Þannig við höfum ekki náð að kynnast þannig Lúxurum, nágrönnum og þannig.
Í hvaða hverfi eruð þið?
Cessange. Mjög kósý, eina sem vantar er góð búð. En það kannski kemur einhvern tímann. Það er alltaf verið að stækka þetta hverfi í allar áttir.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?
Með annan fótinn í Lúxemborg og hinn fótinn einhvers staðar suður. Suður-Frakklandi, Ítalíu, eitthvað svona. Ég er ekki að fara að flytja. Kannski verður maður amma einhvern tímann. Krakkarnir eiga örugglega eftir að flytja í allar áttir. Það er örugglega enginn sem ætlar að eiga heima hér. Þetta er eiginlega þannig að krakkar fara í háskóla einhvers staðar annars staðar. Af því að það er ekki boðið upp á háskólanám fyrir allt. Þú veist, það er ekki allt í boði í Lúxemborg. Þannig öll sérhæfing og allskonar svona er einhver staðar hérna í nágrannalöndunum. Þannig fyrst maður var búinn að draga alla fjölskylduna erlendis þá getur maður alveg búist við því að þau eigi heima einhvers staðar annars staðar. Þetta er svo auðvelt þegar maður er kominn út fyrir eyjuna að þá einhvern veginn opnast svo margar dyr í hausnum hjá manni. Það er allt svo auðvelt núna. Maður er ekkert hræddur við að skjótast þarna og hingað eitthvað. Þannig ég hugsa að við verðum örugglega bara á flakki á milli barnanna okkar og svona, ferðast svolítið.