Lilja Kristjánsdóttir rannsakaði móðurmálskennslu íslenskra barna á erlendri grundu til meistaraprófs í menntunarfræðum frá HA. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvaða efni og aðferðir foreldrar notuðu til þess að kenna börnum sínum á aldrinum 2–6 ára íslensku og hversu ánægðir þeir voru með það efni. Einnig var skoðað hvaða stuðning foreldrarnir teldu sig þurfa til þess að kenna tungumálið.
Þú bjóst erlendis og átt litla frænku og frænda úti. Getur þú sagt mér frá því?
Ég flutti til Lúxemborgar 2010 til systur minnar. Ég bjó úti í Lúxemborg í fimm og hálft ár og þegar ég kom aftur heim þá var systir mín ólétt af sínu fyrra barni og við fengum að fylgjast með við fjölskyldan hvernig henni gekk að kenna íslensku. Lúxemborg er einstök að því leyti fyrir Íslendinga að það eru þrjú opinber tungumál plús enska sem er mælt í viðskiptaheiminum. Þannig við fengum að sjá hvað það er í raun flókið að kenna íslensku. Ég fór í leikskólakennaranám 2021 og ég í rauninni var með þessa hugmynd í kollinum frá byrjun að skoða þennan hóp barna sem býr í útlöndum. Það er í rauninni ekkert vitað rannóknarlega séð um Íslendinga erlendis; hverjar þeirra upplifanir eru, hvort þeir þurfi einhverja ákveðna þjónustu og hvernig á að hjálpa þeim að viðhalda íslensku. Þetta varð ástríða hjá mér að hjálpa þeim því þið fáið enga hjálp. Það er ekkert á margan hátt sem þið eruð að leita að hjálp svosem en það kemur alveg berlega í ljós þegar fólk eignast börn í útlöndum og vill kenna þeim íslensku hvað þið eigið erfitt með þetta. Í fyrsta lagi þá vita foreldrar ekki í rauninni hvernig best er að gera þetta. Ég veit það ekki sjálf en rannsóknin mín sýndi það að foreldrar notuðu samtöl og ætluðu að tala við börnin sín en svo fá þau mikið af íslenskum bókum. En þetta er í raun ekki nóg því til þess að börn tileinki sér tungumál þá verða þau að fá það frá svo mörgum sviðum. Þegar fólk er erlendis þá kemur móðurmálið bara inn á heimilinu. Þannig ég ákvað að meistaraverkefnið hjá mér væri að skoða hvernig íslenskar fjölskyldur eru að gera þetta. Mig langar að halda áfram að kynna verkefnið. Ég er búin að tala við Menntamálastofnun um þetta. Ég var að kynna verkefnið á Menntakviku sem er ráðstefna sem er haldin hérna heima og þar var áhugi fyrir þessu. Það eru margir Íslendingar sem hafa flutt út og aftur heim. Þeirra upplifun var sú að börnin sem eru að koma heim eru með ákveðna íslensku en hún er ekki ekki sambærileg við íslensku börnin sem búa á Íslandi. En foreldrar fá í rauninni mjög lítinn stuðning út af því að þeir eru íslenskir og börnin eiga að geta kunnað þetta. Sem er bara alls ekkert rétt í rauninni.
Það kom fram í ritgerðinni þinni að 69% þátttakenda sögðu að það væri frekar eða mjög erfitt að finna íslenskt sjónvarpsefni til að styðja við íslensku hjá barninu. Hvað heldur þú að vandamálið hérna sé?
Þetta er tvíbent í rauninni. Það sjónvarpsefni sem þið hafið aðgang að það er eins og á Disney+ eða DVD diskunum. Þetta eru yfirleitt kvikmyndir. Þegar við erum að tala um börn sem eru 2-6 ára þá er athyglisspönnin ekki það löng að hún nái að haldast í einn og hálfan tíma. Þátttakendur í rannsókninni töluðu um að þeir vildu fá aðgang að styttra efni. Íslenskir þættir eru talsettir en ég veit ekki hvort að þú getir fengið aðgang að þessum þáttum eins og í gegnum Sjónvarp Símans, Stöð 2 eða jafnvel KrakkaRÚV þar sem að þessir stuttu þættir eru. Það má náttúrulega líka finna íslenska þætti eins og á YouTube. En málið með YouTube er að þeir geta skipt svo ofboðslega hratt yfir á eitthvað erlent efni. Krakkarnir kannski byrja á Gurru grís eða Stubbunum en YouTube bara rennur áfram og allt í einu ertu komin í ensku eða jafnvel þætti sem eru ekki með neitt tungumál. Þannig þetta er skortur á efni og skortur á aðgengi.
Þú minntist á rannsókn þar sem var mælt með því að fullorðnir séu með börnum sínum þegar það horfir á starfræna miðla svo að börnin geti átt í innihaldsríkum samræðum á meðan. En er ekki oft skjátími barna notaður sem tækifæri foreldra til að fara og sinna öðrum verkefnum?
Ég myndi telja það líka. Það er náttúrulega auðvelt að láta barnið fá símann þegar það er á veitingastað eða eitthvað svoleiðis. En það má einmitt alveg líka setjast niður með barninu ef að þú ert vísvitandi að reyna að bæta íslenskuna og segir: „Hvað er Gurra grís að gera hér?“ eða „Hvað er að gerast í þessu myndbandi?“ Þannig barnið fær spurningu og þarf að svara á íslensku.
En þá þarf það að vera af ásetningi hjá foreldrinu að núna sé íslenskukennsla?
Já. En þessi skjátími er líka náttúrulega ein leið hjá barninu að heyra tungumálið mælt. Þetta er kallað málumhverfi. Þannig auðvitað getur það fengið íslensku orðin en til þess að festa það betur þarf barnið að nota þetta orð í einhverjum aðstæðum. Þannig að fá það til þess að nota orðin. Það er það sem við viljum.
Þú nefnir að það sé til slatti af efni á netinu en að foreldrar viti kannski ekki hvar eigi að leita. Getur þú komið með dæmi um slíkt efni?
Fræðslugátt Menntamálastofnunar er mjög góð. Það er gríðarlega mikið efni þar inni. Icelandic online er með námskeið á netinu. Þegar ég var að gera þessa rannsókn, því dýpra sem ég fór því meira efni fann ég. Það er bara ekkert auðvelt að finna þetta. Lærum og leikum með hljóði. Orðagull er líka eitt. Ég veit um fólk sem hefur notað Georg og félagar appið. Það er eitthvað svona leikjaapp sem er á íslensku.
51% þátttakenda voru líklegir til þess að sækja viðburði þar sem töluð var íslenska. Telur þú þarna að mikilvægi Íslendingafélaga sé mikið?
Já, mjög. Út af því að þetta er hluti af tungumálalandslagi barnsins að heyra fleiri fullorðna Íslendinga tala íslensku og líka komast í kynni við börn sem tala íslensku og hafa þennan sameiginlega bakgrunn. Sérstaklega þetta með börnin að ef að þau geta lært íslensku af jafnöldrum sínum að þá styrkja þau í því. Þau læra mikið af foreldrum en það er líka mikilvægt að jafningjafræðsla eigi sér stað. Að þau sjái að börn jafnt og fullorðnir eru að tala þetta tungumál. En já Íslendingafélögin eru klárlega mjög mikilvæg. Bara upp á þetta að gera að skipuleggja svona viðburði. Ég veit að það er erfitt að halda þeim uppi. Ég veit líka að það er erfitt að halda íslenskukennslunni uppi á sumum stöðum. Út af því að Íslendingar eru það fáir og dreifðir út um allt. Þess vegna finnst mér mikilvægt að það verði settur skóli á netið. Þetta er eitt af því sem þarf að gera og sem mig langar að sjá. Að krakkarnir geti sótt námskeið á netinu til þess að fá þessa málörvun. Í Lúxemborg hafið þið það gott því þetta er lítið land og auðvelt að skipuleggja viðburði. Það er mikið af Íslendingum á Norðulöndunum. Við erum með 35.000 manns held ég á Norðurlöndunum. Þótt að það séu íslenskuskólar þar þá er ein af aðaláskorununum sú að þeir eru svo dreifðir út um allt að foreldrar eiga mjög erfitt með að sækja þessa viðburði.
Lilja er að skrifa grein upp úr ritgerðinni sem vonandi kemur út 2024. Hana langar að halda áfram að vinna með þetta málefni og mun tala við Menntamálastofnun því að henni finnst nauðsynlegt að það verði til efni fyrir barnafjölskyldur erlendis.