Brandur Thor Ludwig lærði viðskiptafræði við Háskóla Íslands og hefur starfað á því sviði á Íslandi, London og síðan í Lúxemborg frá árinu 2004. Þau Anna Margrét Rögnvaldsdóttir, sem starfar við skólann ISL, búa í Merl en börnin þrjú eru flogin úr hreiðrinu. Brandur starfar hjá Reviva Capital sem hefur þá sérstöðu að vera eina fyrirtækið í Lúxemborg sem fæst við úrvinnslu lána.
Hvað fékk þig til að flytja til Lúxemborgar?
Ég var að vinna í fyrirtækjaráðgjöf hjá gamla Íslandsbanka á skrifstofu þeirra í London og var boðið tækifæri að vinna með fjárfestum, til að mynda í fasteignaverkefnum, hjá Landsbankanum í Lúxemborg. Við fluttum hingað í Janúar 2004 frá London með 2 dætur (þá 9 og 2ja ára).
„Lúxemborg hefur breyst mikið frá því við komum hingað“
Hvernig var upplifunin þegar þú komst hingað fyrst?
Það voru mikil viðbrigði að koma hingað frá London og við söknuðum mikið verunnar þar. Lúxemborg hefur breyst mikið frá því við komum hingað, því þá var varla hægt að panta mat heim, kerfið var þungt og þjónusta í verslunum ekki eins vinaleg og í London. Hér bjuggu samt margir Íslendingar og við eignuðumst fljótt góða vini.
Hveð felst í starfinu þínu?
Um mitt ár 2005 hætti ég hjá Landsbanknum og byrjaði með mitt eigið fyrirtæki í kringum umsjón með fasteignafjárfestingum. Ég þurfti hinsvegar að leggja það niður 2009 þar sem allir fjárfestar voru frá Íslandi og vegnar ástandsins þar. Undir lok árs 2009 tók ég til starfa sem ráðgjafi hjá slitabúi Glitnis í Lúxemborg með það verkefni að ná utan um verðmæti lánasafns þeirra sem var að megninu til tengt fasteignum víða um Evrópu. Ég vann með hópi góðs fólks þar að því að hámárka endurgreiðslur lána sem m.a. fól í sér að vinna með lántökum að því að selja eignir eða endurfjármagna þær, þannig að lánin fengust endurgreidd. Á árinu 2010 var Reviva Capital stofnað á grundvelli þeirrar sérþekkingar og kerfa sem við höfðum þróað, til að hjálpa öðrum bönkum og slitabúum sem höfðu samskonar verkefni fyrir höndum. Þessi þjónusta hefur þróast á þann hátt að Reviva telur nú 35 starfsmenn á 3 skrifstofum og ég held utan um svokallaða eignastýringu í tengslum við lánasöfn sem og viðskiptaþróun félagsins.
Hverjir eru fjölskylduhagir þínir?
Við eigum 3 börn og 2 barnabörn. Elsta dóttir okkar, Emilía Rún, býr með fjölskyldu sinni í Austin í Texas og á 2 drengi (3 ára og 5 mánaða). Alma Liv er búsett í Stuttgart og vinnur þar í alþjóðlegu markaðsfyrirtæki. Yngsta barnið, Tómas Mikael, útskrifaðist frá ISL í vor og var að byrja í námi í háskólanum í Tilburg í Hollandi.
Heldur Lúxemborg vel utan um barnafólk?
Já og nei. Elsta dóttir okkar, Emilía Rún, fór beint í skólann í hverfinu sem við bjuggum fyrst í en það reyndist henni ekki vel og við fengum litla hjálp hjá skólanum við að aðstoða hana. Eftir það fór hún í ISL (International School of Luxembourg). Reynsla okkar af ISL var mjög góð og ég er þakklátur fyrir að hafa náð að setja öll börnin í gegnum þann skóla. Ég held hinsvegar að Lúxemborg hafi breyst mjög mikið síðan við komum hingað 2004, sérstaklega í tengslum við skólamál. Okkur skilst að það sé mikið betur haldið utan um börn af erlendum uppruna og þau fá viðbótarhjálp til að aðlagast, þó það sé reyndar misjafnlega gott eftir því hvar fólk býr. Varðandi alla þjónustu við barnafólk höfum við góða reynslu.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?
Undanfarin 12 ár hef ég verið hjóla (bæði á veg- og fjallahjóli) og mér finnst það mjög skemmtileg íþrótt sem ég reyni að sinna sem mest. Lúxemborg býður upp á einstaka aðstöðu til þess með hundruði kílómetra af malbikuðum vegum sem eingögnu eru ætluð til útivistar og fyrir vinnuvélar bænda. Á tveggja ára fresti fer ég svo með hópi vina úr Háskóla Íslands í vikulangar fjallahjólaferðir þar sem við höfum farið á framandi staði til að upplifa hjól og menningu. Undanfarin ár höfum við farið í Atlasfjöll Marocco, Slóvensku alpana, Norður Víetnam og á síðasta ári fórum við til Perú. Næsta ferð er 2024 en það er ekki búið að ákveða hvert.
Uppáhaldsveitingastaður í Lúx?
Það eru margir góðir kostir hvað varðar veitingastaði en minn uppáhalds er Brasserie Guillaume sem er fyrsti veitingastaðurinn sem ég kom á í Lúxemborg. Ef við erum hér um jól, förum við þangað á Þorláksmessu. Við förum ekki oft út að borða en pöntun gjarnan sushi frá Hakii sushi (rétt hjá Merl Park) sem ég er einnig mjög hrifinn af.
„Við reynum að fara einu sinni á ári til Íslands að hitta fjölskyldu og vini.“
Hvað fær þig helst til að sakna Íslands?
Við reynum að fara einu sinni á ári til Íslands að hitta fjölskyldu og vini. Ég sakna þess líklega mest því leiðir margra liggja því miður ekki til Lúxemborgar og eina leiðin til að nærast hvað það verðar er að heimsækja Ísland regulega.
Hvað er það besta við að búa í Lúxemborg?
Ég myndi segja veðrið, aðstaðan hér til að hjóla, fögur náttúra og stutt að ferðast til allra átta á meginlandinu. Hér er einnig einstaklega alþjóðlegt umhverfi sem gerir það að verkum að við kynnumst fólki hvaðanæva úr heiminum, t.d. á mínum vinnustað er fólk frá um 10 löndum að vinna saman og það vill svo til að enginn þeirra er innfæddur Lúxemborgari.
Fylgistu enn með íslenskum fjölmiðlum og afþreyingarefni.
Já, ég fylgist vel með fréttum á netinu og því sem er aðgengilegt á netinu. Mér finnst t.d. gaman a horfa á Kiljuna um helgar.
Mætirðu á viðburði Íslendafélagsins í Lúxemborg?
Við vorum dugleg að gera það framan af en á síðustu ár höfum við ekki tekið þátt eins mikið.
„Ég hefði viljað kynnast fleiri innfæddum hér.“
Hefurðu kynnst mörgum innfæddum Lúxemborgurum?
Ég hefði viljað kynnast fleiri innfæddum hér. Það er einna helst í gegnum skólann og krakkana okkar sem og í gegnum Crossfit sem ég stundaði frá 2010 til 2020 (fram að Covid) sem ég hef eignast góða vini, bæði innfædda og erlenda.
Talarðu eitthvert opinberu tungumálanna hér
Það er skömm að segja að ég tala ekki reiprennandi frönsku, þýsku né lúxemborgísku, þó skil ég mikið eftir öll árin hér. Ég hef aldrei unnið á vinnustað þar sem annars en enskukunnáttu er krafist og því ekki fengið tækifæri til að æfa önnur tungumál að neinu leyti.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér hjá ykkur fjölskyldunni?
Þetta er stór spurning sem við erum alltaf að velta fyrir okkur. Ætli sé ekki best að svara þessu þannig að við ætluðum upphaflega að dvelja hér í 2-3 ár og núna, nær 20 árum síðar, erum við hér enn. Þetta kemur bara í ljós.