Félag Íslendinga í Lúxemborg vekur athygli á þáttum Stöðvar 2 sem heita Flugþjóðin í umsjá Kristjáns Más Unnarssonar. Hægt er að sjá klippur úr þáttunum hér. Nauðsynlegt er að vera með áskrift Stöðvar 2 til að sjá þættina í heild sinni. Hér er grein um þættina.

Hér eru þeir Kristján Már og Egill Aðalsteinsson kvikmyndatökumaður með júmbó-þotur og flugskýli Cargolux í baksýn.
Kristján kom til Lúxemborgar fyrst fyrir 30 árum og sá mikinn mun á borginni. „Mér fannst þó allt orðið miklu stærra og alþjóðlegra en áður, sveitabragurinn virtist mér horfinn og stórborgarbragur kominn í staðinn. Ég varð nánast agnofa að sjá þær miklu breytingar sem orðið hafa á Lúxemborg og flugvallarsvæðinu frá því ég kom þangað síðast fyrir sennilega um þrjátíu árum. Ekki síst að sjá þá stórkostlegu uppbyggingu sem orðið hefur á Findel-flugvelli, með nýrri flugstöð, fraktmiðstöð Cargolux, flugskýli og höfuðstöðvum Cargolux, og fjölda skrifstofu- og hótelbygginga.“
Kristján kom nokkrum sinnum til Lúxemborgar á árunum 1985 til 1994, fyrst sem blaðamaður DV árið 1985 til að taka viðtal við Birki Baldvinsson. Þá naut hann góðrar aðstoðar Valgeirs Sigurðssonar veitingamanns á Cockpit Inn, sem var fréttaritari DV, og gisti hann hjá honum.

„Sumarið 1994 fór ég, eins og fjölmargir Íslendingar á þeim tíma, í fjölskylduferð með eiginkonu og þremur ungum börnum. Flugum til Lúxemborgar, leigðum þar bílaleigubíl af íslenskri bílaleigu og keyrðum svo um Lúxemborg, Þýskaland og Frakkland. Þá var allt miklu minna í sniðum og við upplifðum flugvöllinn notalega lítinn og frjálslegan.“
Þeir félagar fengu einstaklega ánægjulegar viðtökur í Lúxemborg við gerð þáttanna, bæði hjá fulltrúum Cargolux og þeim íslensku viðmælendum sem þeir hittu. Á leið sinni í eina slíka heimsókn til Bjarnar Sverrissonar og Salvarar Þormóðsdóttur við Mósel-ána fannst Kristjáni skondið til þess að hugsa að þrátt fyrir nútíma gps-tæki í bílunum þá tókst þeim að villast rækilega um í smáþorpum við Mósel-dalinn. Kristján vill þakka Íslendingum í Lúxemborg sérstaklega fyrir alla aðstoð, m.a. við útvegun gamalla ljósmynda og upplýsinga um söguna, og góða viðkynningu.