Agnar Breiðfjörð Sigurvinsson flugvirki og fjölskylda voru með fyrstu íslensku landnemunum í Lúxemborg þegar þau fluttust hingað árið 1966. Fyrir voru tvær fjölskyldur; þau Einar Ólafsson og Ingibjörg Jónsdóttir og Eiríkur Svavar Eiríksson og Katrín Káradóttir. Eiginkona Agnars er Helga Jónína Walsh. Þau hafa búið hér allar götur síðan og láta vel af. Frumburðurinn, Helga Þorgerður, bankastarfsmaður sem er altalandi á 7 tungumál, var 6 ára þegar þau komu hingað fyrst. Síðar bættist við barnahópinn Óskar Breiðfjörð sem byrjaði sem flugvirki, svo flugmaður og er nú flugstjóri hjá Cargolux og Rannveig snyrtifræðingur sem rekur sína eigin snyrtistofu. Helga Þorgerður og Rannveig búa í Lúxemborg en Óskar í Brussel og Dublin. Saman eiga Agnar og Helga Jónína sex barnabörn. Hér verður rætt við Agnar um ferilinn að Helgu Jónínu og Helgu Þorgerði viðstöddum.
Hvar ólstu upp?
Ég ólst upp í Keflavík. Fæddur þar 1. nóvember 1940. Keflavík var minn staður. Maður var sendur í sveit eins og það var kallað einu sinni. Fór í sveit í Álftaveri í Vestur-Skaftafellssýslu.
Var það góður tími?
Það var góður tími. Bóndinn var með móður sinni og svo var stúlka og ég. Svo dó móðirin um veturinn og þá vorum við bara tveir næsta sumar, ég og bóndinn. Hann vildi heyja fyrir þrjár beljur og 300 rollur. Svo það var nóg að gera.
Þetta var lærdómsríkt?
Ég var þarna einn 13-14 ára. Hann lét mig keyra traktor. Sagði: „Þú getur þetta miklu betur en ég.“
Hvað kom til að þú komst til Lúxemborgar?
Það er langur aðdragandi. Ég átti frænda sem bjó heima hjá móður sinni í Reykjavík. Hún var systir pabba. Frændinn var flugmaður hjá Loftleiðum og ég fékk stundum að skoða herbergið hans. Þar voru flugvélar. Þar er ég 10-11 ára gamall. Þarna var ég svona hálfan daginn meðan pabbi var að útrétta eða gera eitthvað í bænum. Þannig hefur þetta sennilega byrjað. Svo hefur það blundað í manni. Þegar við erum byrjuð að búa þá auglýsa Loftleiðir að þeir ætli að aðstoða unga menn að fara í flugvirkjanám. Ég sótti um og fór í próf. Við vorum fjórir valdir og ég var einn af þeim. Fórum til Tulsa í Oklahoma 1965. Við fórum 4. janúar, það var allt í snjó. Þetta voru gömlu vélarnar DC-6 B. Með venjulegum gömlum hreyflum. Þetta var alveg ævintýri.
Hvernig lá leið þín þaðan til Lúxemborgar?
Loftleiðir gáfu okkur flugfarið og lánuðu okkur pening. Gáfu okkur ávísanir til að halda okkur gangandi. Ég var í skólanum frá 8-14. Svo fékk ég mér vinnu á daginn eftir skólann í 2-3 tíma í dag til að hafa fyrir salti í grautinn. Þetta gekk allt saman í eitt og hálft ár. Svo senda Loftleiðir okkur bréf um hvert við viljum fara. Hvort við vildum fara til Keflavíkur þegar námið er búið, Lúxemborgar eða Stavanger. Þeir voru með mikinn aðgang að Braathens S.A.F.E hjá Stavanger. Það var sá maður sem að kom Loftleiði á með flugvélar. Hann lánaði flugvélar, DC4, áður en þeir gátu keypt þær. Í Tulsa kynntumst við íslensku hjónunum Guðnýju Jónsdóttur og Eysteini Tryggvasyni jarðfræðingi og prófessor við háskólann í Tulsa Oklahoma. Þau áttu tvo syni á aldur við Helgu Þorgerði, þá Þröst og Kristin. Þetta voru virkilega vinaleg hjón og hjálpsöm. Sýndu okkur helstu búðirnar í Tulsa. Jólin 1965 buðu þau öllum Íslendingum til jólaveislu ásamt börnum. Mikil heiðurshjón, blessuð sé minning þeirra. Ég fór til Eysteins þegar komið var að lokum og spurði hann: „Hvernig líst þér á að fara til Lúxemborgar?“ Hann sagði: „Ég skal bara finna það út fyrir þig.“ Sótti bók, fór að lesa og sagði: „Þetta er lítið land. Þetta eru ekki nema 300.000 manns. Mikið járn, kol og vínrækt í Móseldalnum. Og það er góður flugvöllur. Löng flugbraut.“ Svo ég sagði: „Heyrðu við bara förum þangað.“
Hver var þín fyrsta upplifun af Lúxemborg?
Þetta var bara allt saman voða vinalegt hérna. Þetta var önnur þjóð og maður talaði ekki tungumálið. Maður var náttúrulega að klæmast á ensku við þá. En okkar upplifun var bara virkilega góð. Fólk tók vel á móti okkur yfirleitt. Enda hefur það sýnt sig. Fólkið sem býr hér er öðruvísi en annars staðar í Evrópu.
Að hvaða leyti?
Þú sérð bara t.d. heilbrigðiskerfið í Lúxemborg. Ég hef þurft að nota það sjálfur. Þetta er bara borgað. Þetta er ekkert vesen.
Helga Þorgerður: Þetta var svolítið erfitt þegar ég fór í skóla. Ég talaði svolítið amerísku og talaði þannig við kennarann. Ég fór strax í fyrsta bekk. En auðvitað var þetta svolítið öðruvísi. Það var lokað í hádeginu í búðunum og allt lokað á sunnudögum. Lokað í tvo tíma líka í skólanum. Maður kom þá heim. Svo var skóli á laugardögum. En maður bara venst þessu. Þetta eru breyttir tímar í dag.
Hvernig kanntu við þig í Lúxemborg?
Ég kann vel við mig, virkilega. Enda er ég búinn að vera í fimmtíu ár. Ég er búinn að eiga tvö hús. Þetta og annað. Við byggðum frá grunni. Allt í lánum.
Hvað er það besta við að búa hér?
Það er ýmislegt. Veðráttan er mjög góð hérna. Þetta er bara eins og best getur verið. Veistu það, þetta er bara allt svo gott.
„Undir niðri er alltaf í manni Íslendingur.“
Saknarðu Íslands?
Já, svolítið. En það er farið að minnka. Foreldrarnir eru dánir svo það er minna með árunum. En ég get ekki sagt að ég sakni þess. En þér að segja þá eigum við hús í Vogum. Það er enginn þar nema við fjölskyldan. Þegar við förum til Íslands þá erum við þar tvo til þrjá mánuði. Það er alltaf gaman. Undir niðri er alltaf í manni Íslendingur.
Farið þið oft til Íslands?
Nú orðið förum við bara einu sinni á ári. Nú erum við að fara í júní og verðum í tvo mánuði. Við fórum áður allt að þrisvar á ári til Íslands. Þegar við unnum fyrir Loftleiði. Þá fengum við frímiða.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera við tímann eftir að þú hættir að vinna?
Bara að láta sér líða vel. Fer með konuna kannski í verslunarferðir eða eitthvað. Ég var svolítið í sporti hér áður fyrr. Ég var hlaupari. Hljóp í Keflavík í langhlaupum.
„Alltaf endalaust af gestum.“
Helga Jónína: Heilsan náttúrulega leyfir ekki allt. Það var farið í ferðalög. Farið yfir til Þýskalands og Frakklands og svona um helgar. Líka á meðan þau flugu hingað þá var alltaf fullt af fólki sem kom frá Íslandi. Alltaf endalaust af gestum.
Helga Þorgerður: Maður var í því að sýna þeim landið.
Helga Jónína: Og að versla með þeim. Maður fór til Trier.
Agnar: Skipta peningum á landamærunum.
Helga Jónína: Maður þurfti alltaf að gera það.
Agnar: Fá sér þýsk mörk.
Helga Jónína: Svo franska franka.
Agnar: En það voru sömu peningarnir í Belgíu.
Fylgistu enn þá með íslenskum fréttum og afþreyingarefni?
Agnar: Já. Ég geri það.
Helga Jónína: Útvarpið dinglar alla daga. Það er frá morgni til kvölds.
En hvað með local?
Agnar: Það er farið að minnka. En við fylgjumst með því sem er að ske í lúxemborgísku sjónvarpi.
Helga Þorgerður: Alltaf fréttir.
Hefurðu kynnst mörgum Lúxemborgurum?
Já svolítið. Það er ekki hægt að segja annað. Tengdasynirnir eru Lúxemborgarar. Ég hef ekkert annað en gott um þá segja. Líka í gegnum vinnuna.
Er hægt að lýsa Lúxemborgurum á einhvern hátt?
Helga Þorgerður: Þeir eru svolítið íhaldssamir. Vilja halda í allt þetta gamla. Þeir eru kannski fyrst svolítið svona… en svo þegar maður fer að kynnast þá eru þeir voða þægilegir og tryggir. Hvað þá ef maður talar lúxemborgísku. Þá eru þeir agalega stoltir. Það er bara eins og Íslendingar ef einhver útlendingur talar íslensku. Þá eru Íslendingar voða stoltir. Svona eru Lúxarar.
Hvernig var ævistarfið?
Þetta var svolítið frumstætt til að byrja með. Við mættum bara í vinnu rétt áður en að vélarnar komu og svo fórum við bara heim þegar vélarnar voru farnar. Þær komu vanalega seinni part dags. Þetta voru þá bæði DC6 og Monsarnir eins og það var kallað. CL-44. Ég byrjaði að vinna bara sem aðstoðarflugvirki. Við vorum bara fimm að vinna hér fyrst til að byrja með. Svo var ég gerður að verkstjóra. Svo í gegnum árin hef ég farið upp og var yfirflugvirki um tíma. Svo má kannski nota orðið tilviljanakennt. Ég hafði hugsað mér að gerast flugvélstjóri hjá Loftleiðum þá bara fæðist Cargolux. Cargolux varð til 1969. Þá vantaði þarna fyrst til að byrja með kennara og ég var settur í það að verða kennari. Svo endaði með því að ég fór í próf og var gerður að flugvélstjóra og kennara hjá Cargolux.
„Ég er mjög ánægður með þetta allt saman.“
Þetta hefur verið yfirleitt gott. Það hafa verið mikið af útlendingum sem hafa þurft að vinna. Ég hef haft alls konar þjóðflokka; Íslendinga, Þjóðverja, Frakka og Ameríkana. Og allir þurftum við að tala ensku. Það hefur orðið mér til… hvað ég er slæmur í lúxemborgísku. Ég tala nú þýsku en ég er hálfgerður svarti sauðurinn í fjölskyldunni. En við urðum að tala á ensku. Ég er mjög ánægður með þetta allt saman.
Er þér eitthvað minnisstætt úr starfi?
Ég flaug með hertogafólkinu og prins Jean og prins Guillaume 1979 frá Lúxemborg til Dubai. Það var svolítið sérstakt. Við þurftum að vera úti á vellinum. Þau komu keyrandi í fínum bíl og svo vorum við kynntir fyrir þeim. Svo fórum við inn í flugvélina, ég gerði mitt walk-around og svo var farið af stað. Ég leyfði Grand Duke að setjast í sætið mitt og sagði honum hvað við ættum mikið eldsneyti eftir, 63 tonn. „Já, 63 tonn eftir!“ sagði hertoginn. Við vorum með fullan tank. Og svo þegar við nálguðumst Dubai þá komu flugvélar sitt hvoru megin við vænginn. Það var svolítið sérstakt. Ég hafði aldrei séð þetta áður. Svo fylgdu þær okkur niður og svo var lent.
Agnar: Svo var okkur boðið í hertogahöllina niðri í bæ þegar Vigdís Finnbogadóttir var í heimsókn. Þetta var svolítið spes.
Helga Jónína: Við þurftum að hafa bílstjóra og hann varð að sýna pappíra svo við fengjum að fara inn fyrir. Inn í portið. Þetta var svolítið sérstakt.
Agnar: Þetta er það góða. En svo var það slæmt þegar við misstum flugvél. Hún fórst í Dakka. Þeir dóu þarna þrír. Íslendingar og einn Lúxari. Það var svolítið sorglegt.
„Ég hef alltaf sagt að Jóhannes Einarsson er eiginlega bara faðir Cargolux.“
Hvað finnst þér um söluna á Cargolux?
Ég hef lítið spáð í það. Þetta gekk kaupum og sölum. Þetta er fyrirtæki stofnað af Loftleiðum og þessu sænska flugfélagi. Salen selur sinn hlut en Cargolux selur part af sínum hlut til Lufthansa. Þannig að ég sem starfsmaður var aldrei neitt sérstaklega mikið var við hvað væri slæmt og gott við þessar sölur. Við héldum bara okkar striki að fljúga áfram og gera það sem við vorum að gera. En í dag, ég held að Cargolux sé Lúxemborg 35%, svo eru það bankarnir í bænum og svo fyrirtæki sem eiga hlut í Cargolux. Ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega hvernig þetta er. Það eina sem ég fylgist með, sonur minn er flugstjóri. Hann er mjög ánægður með þetta. Þau fá alltaf bónus á ári; eins mánaðarlaun. En Íslendingar eru búnir að stjórna þessu fyrirtæki. Einar Ólafsson, Jóhannes Einarsson og fleiri. Ég hef alltaf sagt að Jóhannes Einarsson er eiginlega bara faðir Cargolux. Kom þessu öllu í gang.
Hefur þú verið duglegur að taka þátt í starfsemi Félags Íslendinga í Lúxemborg?
Já. Helga var meðstjórnandi þar í 2-3 ár og svo var ég í kirkjunefndinni. Það var töluverð vinna þar. Ég tók við af Eyjólfi Hauks sem tók við af Maríu Karls. Ég hef verið mjög mikið í þessu. Það er bara núna síðustu ár sem ég hef ekki farið mikið í þetta.
En áður fyrr voruð þið dugleg að sækja viðburðina?
Já, allt saman. Maður stjórnaði þessu öllu. Við héldum upp á 1. des. Það var fenginn kokkur frá Íslandi. Svo var eldað og dansað. Hvernig er þetta á Íslandi? Ekkert. 1918 fengu Íslendingar sjálfstjórnarréttinn frá Danmörku. Ég stofnaði hljómsveit. Hermann Reynisson var nú eiginlega aðalmaðurinn en hann kallaði þetta Hljómsveit Agnars Sigurvinssonar. Þannig ég var hljómsveitarstjórinn. Það var spilað á jólaböllum og þorrablóti.