Félag Íslendinga í Lúxemborg er með þrjá fasta viðburði. Þorrablót, 17. júní og jólaball. Á þessum viðburðum gefst tækifæri að eiga góðar stundir með samlöndum.
Þorrablót
Þorrablótið er ævinlega haldið helgi fyrir eða eftir vetrarfrí í lúxemborgískum skólum. Við bjóðum upp á þorramat og líka hefðbundinn rétt (t.d. lambalæri). Höfum einnig verið með einn vegan-rétt. Reynt hefur verið að fá skemmtikrafta frá Íslandi. Fjöldasöngur og jafnvel dans stiginn eftir borðhald. Látið þorramatinn ekki hindra ykkur að hittast á þessum viðburði. Jafnvel útlendingar eru farnir að sækjast í þorramat og renna niður hákarli eins og ekkert sé.
17. júní
17. júní hátíðin er ávallt haldin á þjóðhátíðardeginum sjálfum ef hann fellur á helgi en annars á sunnudegi sem næst þjóðhátíðardeginum. Þá gefst Íslendingum færi á að fá sér eina með öllu, íslenskt sælgæti og fyrst og fremst hitt aðra Íslendinga. Við hvetjum fjölskyldur að mæta á þennan viðburð svo að börnin geti kynnst og leikið sér saman.
Jólaball
Jólaballið er alltaf haldið 26. desember beint á eftir jólaguðsþjónustu. Þetta er upplagt fyrir þá sem dvelja í Lúxemborg yfir hátíðarnar. Á jólaballinu er hægt að kaupa kökur til styrktar félagsstarfi Íslendinga í Lúxemborg. Það er boðið upp á heitt kakó fyrir börnin og jólasveinninn mætir með glaðning til þeirra. Gaman væri að rifja upp íslensku jólalögin svo að þið getið sungið vel með þegar dansað er í kringum jólatréð.
Við erum alltaf á höttunum eftir sjálfboðaliðum til að taka þátt í þessum föstu viðburðum. Endilega veittu okkur lið og skráðu þig á lista hér.