Eftirfarandi texti er tekinn upp úr bókinni Landnám Íslendinga í Lúxemborg eftir Heimi G. Hansson sem kom út árið 1994.
Ísland og Lúxemborg
Íslendingar og Lúxemborgarar hafa að mörgu leyti orðið samferða í gegnum söguna. Í báðum löndum voru stofnuð ríki á tíundu öld, á Íslandi með stofnun Alþingis árið 930, en í Lúxemborg stofnaði Sigfried af Ardenna ríkið árið 963. Báðar þjóðirnar bjuggu við erlend yfirráð öldum saman, en auðnaðist að lokum að öðlast sjálfstæði á nýjan leik. Þrátt fyrir mikil erlend áhrif í gegnum aldirnar hefur báðum þjóðum tekist að halda í sitt eigið tungumál. Öfugt við íslenskuna hefur lúxemborgskan nær eingöngu verið til sem talmál og nota Lúxemborgarar aðallega frönsku og þýsku sem ritmál, en þeir tala öll tungumálin þrjú jöfnum höndum.
Lúxemborg á sér volduga nágranna, en landið er umkringt af Þýskalandi, Frakklandi og Belgíu. Þetta litla land, sem í dag er aðeins einn fertugasti af stærð Íslands, eða þriðjungur af stærð Vatnajökuls, hefur í gegnum aldirnar oft mátt líða fyrir staðsetningu sína. Landið var vettvangur orrusta og átaka sem oft leiddu miklar hörmungar yfir íbúa þess. Íslendingar nutu aftur á móti verndar hafsins gegn árásum og yfirgangi erlendra herja, en hins vegar þurftu landsmenn að glíma við náttúruöfl sem oft fóru um þá ómjúkum höndum og hjuggu stór skörð í þjóðina.
Þjóðfélagið í Lúxemborg, líkt og á Íslandi, var fram eftir öldum landbúnaðarþjóðfélag þar sem oft var stutt í fátækt og lítið mátti útaf bera til að stór hluti þjóðarinnar þyrfti að lifa við sult og seyru. Það voru líka margir sem þráðu betra líf og gripu tækifærið þegar fregnir bárust frá nýja heiminum um að þar drypi smjör af hverju strái. Áætlað er að á síðari helmingi 19. aldar hafi nálægt sjötíu þúsund manns flutt til Vesturheims frá Lúxemborg, eða hátt í þriðjungur þjóðarinnar. Á sama tíma er talið að um tólf þúsund Íslendingar hafi tekið sig upp og flust vestur um haf.
Við upphaf tuttugustu aldarinnar varð stálfyrirtækið Arbed risi í lúxemborgísku efnahagslífi og þjóðfélagið tók að breytast úr því að vera landbúnaðarþjóðfélag, yfir í iðnaðarþjóðfélag. Járn og stál léku þannig sama hlutverk í Lúxemborg og sjávarfangið lék á Íslandi.
Bæði löndin höfðu lýst yfir hlutleysi í stríðsátökum, en það dugði þó ekki til þess að þau nytu friðar á meðan síðari heimsstyrjöldin geysaði. Árla morguns hinn 10. maí 1940 stigu breskir dátar í land í Reykjavík, og þrátt fyrir að ekki yrði vart við mikil fagnaðarlæti þegar þessir óboðnu gestir hernámu landið, þá þökkuðu flestir fyrir að það skyldu hafa verið Bretar en ekki Þjóðverjar sem sigldu inn sundin þennan morgun. Lúxemborgarar voru ekki jafn heppnir, því að sama dag og forvitnir Íslendingar fylgdust með herönnum hans hátignar koma sínu hafurstaksi í land í Reykjavík, marseruðu hversveitir Þúsund ára ríkisins þungum skrefum inn í Lúxemborg og tóku stjórn landsins í sínar hendur. Ríkisstjórnin og hertogafjölskyldan flúðu land og dvöldust í Bretlandi og Bandaríkjunum uns landið hafði verið frelsað á ný.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar tóku báðar þjóðirnar afdráttarlausa afstöðu til stöðunnar gagnvart herraþjóðum sínum. Árið 1944 samþykktu Íslendingar, með rúmlega 97% atkvæða að segja sig úr kongungssambandi við Danmörku. Stofnað var lýðveldi og Sveinn Björnsson varð fyrsti forseti landsins. Fljótlega eftir hernám Lúxemborgar voru íbúar landsins látnir fylla út eyðublað vegna manntals. Á þessi blöð áttu þeir m.a. að skrifa hvaða ríki þeir vildu tilheyra, hverrar þjóðar þeir vildu vera og hvaða tungumál ætti að verða þeirra móðurmál. Sem vænta mátti lögðu yfirmenn hernámsliðsins mikla áherslu á mikilvægi þess að allir yrðu samtaka um að kjósa að tilheyra þýsku þjóðinni og tala þýsku sem móðurmál. Úrslit atkvæðagreiðlsunnar voru ótvíræð. Þrátt fyrir að allir vissu hvílíkar hörmungar það gat leitt yfir þá að óhlýðnast gæðingum Hitlers, svöruðu yfir 90% þjóðarinnar þannig, að þeir væru Lúxemborgarar að þjóðerni, tilheyrðu ríkinu Lúxemborg og að þeirra móðurmál væri lúxemborgska. Segja má að þar hafi verið sannað réttmæti orða Jóhanns blinda, greifara af Lúxemborg sem uppi var á fjórtándu öld, um að sannur Lúxemborgari hopaði aldrei, heldur væri staðfastur og sigraði eða félli með sæmd.
Niðurstaðan í atkvæðagreiðslunni í Lúxemborg var jafn afdráttarlaus og í atkvæðagreiðslunni á Íslandi. Í Lúxemborg var hún hinsvegar hunsuð, landið var innlimað í Þriðja ríkið og komið þar á þýskri herskyldu. Fjöldi fólks lenti í fangabúðum Þjóðverja og ungir menn voru sendir á vígvöllinn í þúsundatali, þar sem flestir þeirra féllu við að berjast fyrir málstað sem þeir voru andsnúnir, gegn málstað sem þeir voru fylgjandi.
Bæði Ísland og Lúxemborg hurfu frá hlutleysisstefnu sinni og voru í hópi tólf stofnþjóða Atlantshafsbandalagsins hinn 4. apríl 1949. Á undanförnum áratugum hafa báðar þjóðirnar orðið vitni að hröðum framförum á flestum sviðum þjóðlífsins og hafa skipað sér á bekk í samtökum frjálsra þjóða.
Lúxemborg var Íslendingum lítt kunn framan af tuttugustu öldinni, nema þá helst fyrir þá sök að þar dvaldist Halldór Laxness sem ungur maður í hópi munka í Saint Maurice de Clervaux klaustrinu og tók sér þar millinafnið Kiljan. Halldór kom í klaustrið í nóvember árið 1922 og eyddi þar nokkrum mánuðum við skriftir. Hann gerðist félagsmaður í Bænasambandi fyrir afturhvarfi norrænna þjóða til kaþólsks siðar og las Maríusaltara daglega, í von um frelsun Norðurlanda undan oki mótmælendatrúarinnar. Munkarnir í Clervaux komu víða að og þar voru töluð mörg tungumál og hafði Halldór einhverju sinni á orði að íslenska væri nánast eina málið sem hann þyrfti ekki að tala í Lúxemborg. Hann hefur líklega ekki órað fyrir því að nokkrum áratugum síðar yrði íslenska töluð af hundruðum manna í landinu.