Eftirfarandi textabútar eru teknir upp úr bókinni Landnám Íslendinga í Lúxemborg eftir Heimi G. Hansson sem kom út árið 1994.
Lítt numið land
Árið 1950 gekk André Clasen, ráðherra í ríkisstjórn Lúxemborgar á fund íslenska sendiherrans í Lundúnum til að reka erindi flugfélagsins Luxembourg Airlines, eða Socieété Luxembourgeoise de Navigation Aérienne, eins og það hét fullu nafni. Erindið var það, að fá leyfi fyrir vélar félagsins til að fljúga yfir Ísland á leið þeirra til Venesúela og fá að lenda á Keflavíkurflugvelli ef á þyrfti að halda, þó ekki til að taka farþega. Íslensk stjórnvöld féllust á þessa beiðni en tóku jafnframt fram að félagið gæti ekki fengið heimild til að athafna sig frekar á Íslandi nema með gerð sérstaks samnings „sem varla myndi ástæða til að hugsa til að gerður yrði, milli Íslands og Lúxemborgar.“
Það voru þó ekki allir sem töldu fráleitt að Íslendigar og Lúxemborgarar gerðu með sér samning um loftferðamál. Um svipað leyti og stjórnvöld voru að afgreiða beiðni Luxembourg Airlines um heimild til að fljúga yfir landið, var flugmálastjóri Íslands, Agnar Kofoed-Hansen, staddur á alþjóðlegri flugmálaráðstefnu í Helsingfors í Finnlandi. Þar var líka staddur Pierre Hamer, hinn lúxemborgski starfsbróðir Agnars og góður vinur að auki. Sagan segir að einhverju sinni er þeir félagar brugðu sér í gufubað að finnskum sið, hafi Agnar varpað fram hugmynd sem varð kveikjan að samvinnu Íslendinga og Lúxemborgara í flugmálum. Agnar, sem oft virtist sjá lengra inn í framtíðina en fólk gerir flest, nefndi þann möguleika við Hamer, að Íslendingar fengju aðstöðu í öðrum löndum á meginlandi Evrópu.
Agnar mun raunar lengi hafa gefið Findel flugvelli í Lúxemborg auga. Honum þótti afar blóðugt að horfa upp á þennan ágæta flugvöll í hjarta Evrópu standa svo lítt notaðan og fáum til gagns. Staðreyndin var nefnilega sú að Lúxemborg var í raun og veru nánast ónumið land hvað flugmál snerti. Flugfélag þeirra Lúxemborgara nýtti sér aldrei heimildina til að fljúga yfir Ísland á leiðinni til Venesúela, enda varð starfsemi þess félags lítil. Mun hún að mestu leyti hafa falist í því að ferma og afferma vélar fyrir bandaríska flugfélagið Seaboard & Western, en bandaríska félagið hafði aðstöðu fyrir vöruflutninga á Findel. Belgíska flugfélagið Sabena flaug öðru hvoru um Lúxemborg á ferðum sínum um Evrópu og tvö önnur lítil farþegaflugfélög höfðu þar viðkomu. Þar með má segja að starfsemin hafi verið upp talin.
Pierre Hamer var mjög áfram um að efla flugstarfsemi í Lúxemborg og tók hugmyndum Agnars fagnandi. Þeir félagar unnu áfram að þessu máli og árangurinn varð sá að hinn 22. október 1952 kom Victor Bodson, samgöngu- og dómsmálaráðherra Lúxemborgar ásamt Hamer flugmálastjóra til að undirrita loftferðasamning milli landanna. Undirritunin fór fram daginn eftir og skrifaði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undir fyrir Íslands hönd.
Horft til Lúxemborgar
Loftleiðir voru óvíða aufúsugestir hjá stjórnvöldum í Evrópu og kjóst var að erfitt yrði að finna land þar sem félagið gæti athafað sig án þess að vera bundið reglum IATA. En þá mundu menn eftir loftferðasamningnum sem gerður hafði verið við Lúxemborg. Yfirvöld þar voru mjög áfram um að efla flugrekstur og auka flugumferð í landinu og settu engin skilyrði varðandi fjölda ferða eða að fargjöld skyldu vera í samræmi við ákvarðanir IATA.
Það var auðvelt að sjá fyrir að hinir voldugu nágrannar Lúxemborgar myndu þrýsta mjög á smáríkið að veita Loftleiðum ekki aðstöðu í landinu. En myndu þeir láta bugast? Sigurður Magnússon, blaðafulltrúi Loftleiða, sagði síður að menn hefðu metið stöðuna sem svo, að Lúxemborgarar hefðu „áður deilt við stórveldi um lífshagsmuni sína og sigrað.“ Því var talið rétt að láta reyna á styrk stjórnvalda í hertogadæminu.
Um það leyti sem Loftleiðarmenn tóku endanlega ákvörðun um að hefja flug til Lúxemborgar sendu þeir Sigurð Magnússon í kynnisferð til landsins. Hann skilaði skýrslum um ferðina til stjórnar félagsins og taldi alla möguleika vera á framtíðarsamskiptum við Lúxemborgara. Sigurður ritaði einnig nokkra þætti um för sína, sem birtist í dagblaðinu Vísi. Óhætt er að fullyrða að Íslendingar voru á þessum árum almennt mjög ófróðir um Lúxemborg enda fékk landið lítið pláss í íslenskum landafræðibókum. Í Lúxemborgarþáttum sínum í Vísi fjallaði Sigurður ítarlega um land og þjóð og hljóta þessar greinar að teljast fyrsti raunverulegi fróðleikurinn sem almenningi á Íslandi var færður um þetta litla land, sem innan skamms átti eftir að verða svo tengt Íslandi og Íslendingum. En það var ekki aðeins að Íslendingar þekktu lítið til Lúxemborgar, heldur komst Sigurður fljótlega að því á ferðalagi sínu um stórhertogadæmið, að íbúar þar vissu jafnvel enn minna um Ísland. Þeir fáu sem eitthvað þekktu til landsins virtust eingöngu gera það vegna Nonnabókanna,
Og þegar blaðafulltrúinn hafði útskýrt samviskusamlega fyrir fólki hvað Ísland væri voru biðbrögðin oft: „Þjóð sem er minni en Lúxemborg! Nei, það hlýtur að vera eitthvað bogið við hana.“
Í nýju griðlandi
Jómfrúarferð Loftleiða til Lúxemborgar hófst að morgni laugardagsins 21. maí 1995, þegar DC 4 vél félagsins, Edda, hóf sig til flugs frá Reykjavíkurflugvelli. Á flugvellinum hafði safnast saman töluverður mannfjöldi í tilefni komunnar enda hafði verið rækilega um málið fjallað í lúxemborgískum dagblöðum og bent á að nú væri Lúxemborgurum í fyrsta sinn að opnast leið til Bandaríkjanna. Í dagblaðinu Vísi var móttökunum svo lýst:
Eftir að ávörpum var lokið og skálað hafði verið í kampavíni, hóf Edda sig á loft á nýjan leik með fyrstu farþega Loftleiða frá Lúxemborg til New York innanborðs. Það mátti vera öllum ljóst, að loksins höfðu Loftleiðir fundið griðland á meginlandi Evrópu.
Umsvifin aukast
Hinn fjórða mars 1970 var vöruflutningaflugfélagið Cargolux Airlines International s.á. stofnað. Eignaraðild var þrír jafnir hlutar og áttu Loftleiðir einn, sænski skipakóngurinn Salén annan og Luxair ásamt nokkrum einkaaðilum hinn þriðja. Margir af helstu yfirmönnum hins nýja fyrirtækis voru Íslendingar og á næstu árum komu fjölmargir íslenskir flugliðar til starfa hjá fyrirtækinu. Um leið varð til „Íslendinganýlenda“ í landinu. Árið 1970 voru þeir orðnir 258 og fór stöðugt fjölgandi. Landnám Íslendinga í Lúxemborg var orðið staðreynd.
„Fyrstu landnámsmennirnir“
Árið 1961 kom fyrsti Íslendingurinn til Lúxemborgar til langdvalar. Þar var á ferð Siggeir Sverrisson flugvirki, sem þá var starfsmaður bandaríska flugfélagsins Seven Seas Airlines. Um jólin 1962 fluttist svo Gunnar Björgvinsson til landsins og kom þar á fót viðhaldsdeild fyrir flugvélar Loftleiða. Siggeir slóst fljótlega í lið með Gunnari hjá Loftleiðum og árið 1963 fluttist eiginkona hans, Elín Sigurþórsdóttir, utan og varð fyrsta íslenska konan sem búsett var í Lúxemborg.
Vorið 1964 var farið að bæta við verkstæðið og umsvifin jukust. Upp úr því fóru smám saman fleiri Íslendingar að flytja til hertogadæmisins og bættust þá í hópinn þau Geir Hauksson, Ásgeir M. Jónsson og Gerður Ólafsdóttir, Einar Ólafsson og Ingibjörg Jónsdóttir, Sigurður Jónsson og Valgerður Ingólfsdóttir, Svavar Eiríksson og Katrín Káradóttir, Björn Sverrisson, Agnar Sigurvinsson og Helga Walsh, Þórður Sæmundsson og Drífa Sigurbjarnardóttir, Guðlaugur Guðfinnsson og Ásdís Sveinsdóttir og fleiri.
Fyrstu Íslendingarnir sem fluttu til Lúxemborgar voru nær allir flugvirkjar, sem fóru utan til starfa á viðhaldsdeild Loftleiða í landinu. Flugvirkjarnir höfðu flestir nýlega lokið námi í Bandaríkjunum er þeir voru ráðnir til Lúxemborgar. Loftleiðir höfðu lánað þeim fé til að mæta námskostnaði og að námi loknu var þeim boðið upp á vinnu á Íslandi, í Stafangri, New York eða Lúxemborg. Í mörgum tilfellum var aðeins hægt að tryggja mönnum atvinnu í stuttan tíma, jafnvel aðeins fáeina mánuði. Þeir sem réðust til Lúxemborgar fengu aftur á móti ráðningarsamninga til lengri tíma og það gerði útslagið hjá mörgun. Eða eins og Þórður Sæmundsson orðaði það: „Ég gat valið um verkstæðið í New York eða Lúxemborg og af tvennu illu valdi ég Lúxemborg.“
Fjölgar í hópnum
Íslendingum í Lúxemborg fjölgaði hægt á sjöunda áratugnum og árið 1970 voru þeir 42 talsins. En upp úr 1970 fór þeim óðfluga að fjölga. Bæði var verkstæði Loftleiða í New York flutt til Lúxemborgar og með því nokkur hópur flugvirkja, bifvélavirkja og annarra, og svo var flugfélagið Cargolux stofnað. Fram til 1970 voru Loftleiðir það fyrirtæki sem sá Íslendingunum í Lúxemborg fyrir atvinnu. Eftir það varð hinsvegar Cargolux aðal atvinnuveitandinn og hefur verið það allt fram til dagsins í dag. Eftir stofnun Cargolux fóru íslenskir flugstjórar, flugmenn, siglingafræðingar og hleðslustjórar að koma til hertogadæmisins í stríðum straumum.
Fyrir flesta Íslendingana var það hálfgert neyðarbrauð að flytja að til Lúxemborgar, því atvinnu var einfaldlega ekki að hafa annarsstaðar. Landið þótti ekki sérlega freistandi og flestir komu til að gera stuttan stans. Yfirleitt skrifuðu menn upp á ráðningarsamninga hjá Cargolux til þriggja ára og höfðu alls ekki í hyggju að dveljast þar lengur. Mörgum fannst raunar nóg um að þurfa að halda út allan þann tíma í landinu.
Út af fyrir sig
Íslendingar í Lúxemborg hafa haldið sig talsvert útaf fyrir sig í landinu. Fyrstu árin sem Cargolux starfaði voru þeir að flytja utan í stórum hópum, allt ungt fólk á svipuðum aldri, og karlmennirnir höfðu margir verið í flugnámi saman eða unnið saman á Íslandi. Þetta fólk hélt mjög mikið hópinn og var ein stór fjölskylda, ríki í ríkinu, og oft í takmörkuðu sambandi við aðra íbúa landsins. Tungumálaörðugleikar höfðu þar vissulega talsvert að segja, en eins þótti fólki að erfitt væri að kynnast Lúxemborgurum. Þeir virkuðu fremur stífir og þungt yfir þeim líkt og þeir væru varir um sig og vildu ekki hleypa öðrum mjög nálægt sér. Öllum ber þó saman um það, að þegar fólk hefur loksins náð að kynnast Lúxemborgara, þá er hann tryggur og traustur vinur fyrir lífstíð.
Mikill agi
Skólakerfið í Lúxemborg þykir eitt hið besta í Evrópu og óvíða býðst betri undirbúningur undir æðra nám en í lúxemborgskum framhaldsskólum. Í gegnum tíðina hefur samt verið mjög algengt að íslenskir unglingar í Lúxemborg hafi leitað í menntaskóla og fjölbrautarskóla á Íslandi. Fyrir því liggja ýmsar ástæður. Framhaldsskólar í Lúxemborg eru gífurlega strangir og erfiðir og fall er mjög mikið. Það er ekki óalgengt að lúxemborgskir unglingar kjósi fremur að leita í skóla í Belgíu eða Frakklandi, en að stunda nám heima fyrir.
Upp metorðastigann
Tilvera Íslendinganna í Lúxemborg var samofin tilveru Cargolux. Þegar uppgangur fyrirtækisins var mikill fjölgaði Íslendingum mikið. En þeir tímar komu líka þegar illa áraði hjá fyrirtækinu. Fyrstu ár níunda áratugarins voru flestum flugfélögum afar erfið og þar var Cargolux engin undantekning. Fyrirtækið reri lífóður og varð að leita til starfsmanna um aðstoð og þeir lánuðu því hluta launa sinna. Í gráglettnum annál ársins 1983, sem fluttur var á þorrablóti Íslendinga í Lúxemborg árið eftir segir m.a.: „… fyrirtækið var lítillátt og vildi ekki þiggja nema 10% af launum manna. Munaði engan um það smáræði.“ En þó að fólk gerði að gamni sínu þá var öllum ljóst að nú fóru í hönd erfiðir tímar. Cargolux þurfti að fækka verulega í starfsliði sínu og fóru íslenskir starfsmenn ekki varhluta af því. Margir misstu vinnuna og fluttu heim, en einhverjir tóku upp lúxemborgskt ríkisfang til að tryggja betur atvinnuréttindi sín í landinu. Á árunum 1980 til 1985 fækkaði íslenskum ríkisborgurum sem bjuggu í hertogadæminu um tæplega 100, voru orðnir 269 þegar erfiðleikunum fór loks að linna.
Enn bætist í hópinn
Þrátt fyrir að mestu búferlaflutningarnir frá Íslandi til Lúxemborgar hafi verið á fyrri hluta áttunda áratugarins og að nú eigi Flugleiðir ekki lengur hlut í Cargolux, þá eru enn í dag að bætast nýir Íslendingar í hópinn í hertogadæminu. Þetta fólk kemur á margan hátt að allt öðruvísi landi en þeir sem komu fyrstir, enda hefur Lúxemborg tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Líklega dettur fæstum lengur í hug orðið sveitaþorp þegar þeir sjá höfuðborgina nú til dags. Á breiðgötunni Bouleard Royal, þar sem áður voru trjágöng og herragarðar á báðar hendur, gnæfa nú bankahallirnar, tákn hinna nýju tíma í Lúxemborg, við himinn. Og þorpin, sem mörgum þótti vera skítug og grá eru nú orðin snyrtileg og aðlaðandi og sóma sér vel í sínu fallega umhverfi umlukin víðáttumiklum engjum, vínviðarekrum og tignarlegum skógum.
En það er ekki aðeins að fólk komi nú að meira aðlaðandi landi en áður fyrr. Unga fólkið sem flyst utan í dag fer á allt öðruvísi forsendum. Þeir fyrstu fóru flestir til Lúxemborgar í hálfgerðri neyð og ætluðu sér að stoppa eins stutt og mögulegt væri.
Það unga fólk sem flytur utan nú til dags gerir það síður af neyð og hefur yfirleitt ekki neinar áætlanir um að snúa til Íslands næstu árin. Nú til dags er ungt fólk yfirleitt veraldarvanara en almennt gerðist á árunum í kringum 1970 og það er færra nú en áður sem kemur á óvart í nýjum heimkynnum í útlöndum. Með aukinni tækni fer heimurinn sífellt minnkandi og fólk veit í flestum tilfellum betur að hverju það gengur þegar það ákveður að flytjast utan.
Langflestar þeirra kvenna sem komu til Lúxemborgar á sjöunda áratugnum og í byrjun þess áttunda eru heimavinnandi. Hinsvegar hafa þær konur, sem flust hafa utan hin síðari ár, sótt talsvert mikið út á vinnumarkaðinn. Þar kemur bæði til að konur í Lúxemborg eru almennt farnar að vinna meira utan heimilis en áður og líka það, að margt ungt fólk hefur ágæt tök á frönsku eða þýsku, jafnvel báðum málunum, eftir skólagöngu á Íslandi. Góð tungumálakunnátta er nauðsynleg til að vera samkeppnisfær um þau störf sem í boði eru. Sjálfir tala Lúxemborgarar nú til dags almennt ágæta ensku, þannig að nýir innflytjendur sleppa alveg við þau vandamál sem áður fyrr fylgdu því að geta ekki tjáð sig með góðu móti.
Þó svo að í seinni tíð sé það að verða æ algengara að íslenskir bankamenn, iðnaðarmenn og fólk úr öðrum greinum atvinnulífsins flytjist til Lúxemborgar, þá hefur enn lang stærstur hluti Íslendinga sitt lifibrauð af flugi og starfsemi sem því tengist. Vinnuskipulag og kjör flugliða Cargolux eru allt önnur og betri en áður var og ungir flugmenn sem ráðast til starfa hjá félaginu njóta nú ávaxta erfiðis frumherjanna, sem með dugnaði sínum komu fyrirtækinu á legg.